Kínversk yfirvöld hafa viðurkennt að mótmæli gegn kínverskum stjórnvöldum hafa breiðst út fyrir Tíbet, en kínverska ríkissjónvarpið greindi frá óróa í Sichuan og Gansu héraði í Kína og miklu tjóni á ríkisbyggingum og verslunum eftir óeirðir á sunnudaginn. Kínverjar hafa hert eftirlit í Tíbet, og hundruð hermanna flykkjast inn í landið.
Fram kemur á fréttavef BBC að ástandið í Lhasa, höfuðborgar Tíbet, hafi róast, en kínversk yfirvöld segja að 170 mótmælendur hafi gefið sig fram og 24 hafi verið handteknir frá því á mánudaginn, þegar tímamörk sem mótmælendum voru sett um að gefast upp runnu út. Þeim sem ekki myndu gefast upp yrði harðlega refsað samkvæmt lögum landsins.
Kínversk yfirvöld og tíbetskir útlagar gefa mjög mismunandi upplýsingar um mótmælin sem hófust þann 10, mars og eftirköst þeirra. Kínverjar segja að 16 manns hafi látið lífið í óeirðum en útlagastjórn Tíbet segir að allt að 100 manns hafi látið lífið. Dalai lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, lýsir yfir áhyggjum sínum af fjölda látinna, „sumir segja sex, aðrir 100, við vitum ekki nákvæmar tölur, en sumum stöðum hefur verið lokað, og mikið af kínverskum hermönnum," segir Dalai Lama.
Hann segist tilbúinn til þess að hitta Hu Jintao, forseta Kína, ef hann fengi raunhæfar vísbendingar um að Kínverjar væru tilbúnir til þess að hefja viðræður.