Skjöl, þar sem fundir og önnur skyldustörf Hillary Clinton eru rakin á meðan hún var forsetafrú Bandaríkjanna, sýna að hún var í Hvíta húsinu á sama tíma og Bill Clinton átti þar ástarfundi með lærlingnum Monicu Lewinsky. Birting þessara gagna þykir koma á óþægilegum tíma fyrir Clinton, sem hefur sótt verulega í sig veðrið á ný í baráttunni fyrir að verða útnefnd forsetaefni demókrata.
Um er að ræða alls 11 þúsund blaðsíður sem bandaríska þjóðskjalasafnið hefur birt. Að sögn bandarískra fjölmiðla sést þar, að Hillary var í Hvíta húsinu 28. febrúar 1997 milli klukkan 5:48 og 7:07 en á þeim tíma voru þau Bill Clinton og Lewinsky í einkaskrifstofu forsetans. Þeim fundi lauk með því að Bill skildi erfðaefni sitt eftir á bláum kjól lærlingsins, kjólnum sem bandaríska alríkislögreglan FBI lagði síðar hald á í rannsókn á meinsærismáli forsetans.
Þau Lewinsky og Bill Clinton áttu ástarfundi alls 10 sinnum í Hvíta húsinu að því er kom fram á sínum í skýrslu Kenneths Starrs, sérstaks saksóknara. Í átta af þessum skiptum var Hillary stödd í Hvíta húsinu, samkvæmt gögnunum, sem nú hafa verið birt.
Fylgi við Clinton sem forsetaefni Demókrataflokksins hefur aukist að undanförnu og ný Gallupkönnun, sem birt var í dag, sýnir að hún nýtur nú 49% fylgis en Barack Obama, mótframbjóðandi hennar, 42%. Aðstoðarmenn Clinton segja ástæðuna þá að hún hafi lagt aukna áherslu á efnahagsmál og sýnt fram á að hún geti stýrt landinu en aðrar ástæður kunna einnig að búa að baki.
Að undanförnu hafa fréttir af kynlífshneykslum kjörinna embættismanna verið áberandi. Eliot Spitzer varð að segja af sér sem ríkisstjóri í New York eftir að samband hans við vændiskonu komst í hámæli. David Paterson, eftirmaður hans, neyddist til að viðurkenna framhjáhald. Kwame Kilpatrick, borgarstjóri Detroit, sagði af sér og yfirvöld rannsaka hvort hann og fyrrum aðstoðarkona hans hafi framið meinsæri þegar þau neituðu fyrir rétti á síðasta ári að hafa átt í ástarsambandi fyrir fimm árum.
Í vikunni upplýsti Jim McGreevey, fyrrum ríkisstjóri New Jersey, sem sagði af sér árið 2004 eftir að hann viðurkenndi samkynhneigð sína opinberlega, að hann, eiginkona hans og karlkyns fyrrum aðstoðarmaður hafi átt kynlífsfundi. Eiginkonan hefur harðneitað þessu.
Þessi mál, einkum mál Spitzers, hafa vakið upp reiði meðal bandarískra kjósenda sem telja að það kunni að vera heppilegra að kjósa konur í áberandi embætti. Þótt Lewinskymálið hafi ekki beint skaðað Clinton til þessa koma þessar fréttir því á óþægilegum tíma.
Ýmislegt annað í gögnunum gæti haft stjórnmálalega þýðingu. Þau sýna, að Clinton varði mestum tíma sínum á árunum 1993 og 1994 í að stýra starfshópnum, sem átti að móta nýja stefnu í heilbrigðismálum. Sú stefnumótun mistókst hrapalega og átti stóran þátt í því að demókratar töpuðu meirihluta sínum í báðum deildum Bandaríkjaþings.
Þá benda gögnin til þess, að Hillary Clinton hafi setið fundi sem miðuðu að því að vinna að fríverslunarbandalagi Norður-Ameríkuríkja, NAFTA, en Hillary hefur í kosningabaráttunni undanfarið reynt að gera sem minnst úr sínum þætti í þeim samningi.
Einnig er ljóst, að þótt Hillary hafi ferðast til Norður-Írlands og annarra ríkja til að vinna að friði og réttindum kvenna, þá benda fundarskrárnar til þess að í utanlandsferðum sínum hafi hún varið mestum tíma til að uppfylla hefðbundnar skyldur forsetafrúar.