Ný upptaka með bin Laden

Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera sýndi í kvöld upptöku sem talin er vera úr nýju myndbandi þar sem Osama bin Laden, leiðtogi al-Qaida, gagnrýnir viðræður Palestínumanna við Ísraela og hvetur til heilags stríðs til stuðnings Palestínu. Er þetta annað myndbandið sem birtist með bin Laden á tveimur dögum.

Er þetta í fyrsta skipti sem bin Laden fjallar um málefni Palestínu frá því að Hamas náði yfirráðum yfir Gazaströndinni og Ísraelsmenn hófu árásir á Gazaströndina sem svar við eldflaugaárásum herskárra Palestínumanna á ísraelska bæi. Í myndbandinu segir bin Laden að Palestínumenn nái ekki Palestínu á sitt vald á ný með samningaviðræðum heldur þurfi að beita eldi og stáli. Hvatti hann Palestínumenn til þess að styðja heilagt stríð al-Qaida í Írak ef þeir geti ekki barist gegn Ísraelsmönnum á svæðinu í kringum Jerúsalem.

Al-Jazeera greindi ekki frá því hvernig upptakan komst í þeirra hendur en með hljóðupptökunni var sýnd gömul mynd af bin Laden þar sem hann er með hvítan höfuðklút og í hefðbundnum klæðnaði Araba.

Í myndbandinu sem birtist í gær ásakaði bin Laden Benedikt XVI páfa um að styðja nýja krossferð gegn íslam og varaði við því að birtingu skopteikninga af Múhameð spámanni yrði svarað. Telja ýmsir að með myndbandinu sé bin Laden að vara við nýrri árás á Evrópu.

Ávarpið, sem birtist á vef herskárra samtaka, sem áður hafa birt ávörp frá leiðtogum al-Qaeda. Með birtist merki al-Sahab, fjölmiðlaarms samtakanna og ljósmynd af bin Laden með AK-47 riffil. Boðað hafði verið að bin Laden myndi senda frá sér ávarp í tilefni af því að fimm ár eru liðin frá innrásinni í Írak.

Í dag bað páfi fólk í kaþólsku kirkjunni að óttast ekkert þrátt fyrir orð bin Laden í myndbandinu í gær. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka