Sextán ára gamall blaðburðardrengur, sem ráðist var á með kylfu að vopni á Amager í Kaupmannahöfn á miðvikudag, lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í gærkvöldi. Þrír piltar á aldrinum 15 til 18 ára, hafa verið handteknir grunaðir um árásina.
Drengurinn fék það alvarlega höfuðáverka að ljóst var að hann myndi aldrei komast til meðvitundar þótt læknum tækist að bjarga lífi hans. Piltarnir þrír, sem grunaðir eru um árásina, voru úrskurðaðir í 27 daga gæsluvarðhald í gær. Tveir þeir yngri, 15 og 17 ára bræður, voru vistaðir á unglingaheimili.
Ráðist var á blaðburðardrenginn í Polensgade. Sjónarvottar segja, að bíll hafi verið stöðvaður við hliðina á drengnum. Út úr honum stigu tveir menn og spurðu drenginn: Á hvað ertu að glápa? Síðan slógu þeir hann í höfuðið með kylfu og reiðhjólalás.
Lögreglan hóf þegar leit að bílnum og ungu mennirnir þrír voru handteknir skömmu síðar í nágrenninu. Þeir hafa allir oft komið við sögu hjá lögreglunni.