Pelosi ræddi við Dalai Lama

Nancy Pelosi og Dalai Lama í Dharmsala á Indlandi í …
Nancy Pelosi og Dalai Lama í Dharmsala á Indlandi í morgun. AP

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, átti í morgun fund með Dalai Lama, andlegum leiðtoga Tíbeta, í Dharmsala á Indlandi þar sem tíbetska útlagastjórnin heldur til. Hvatti Pelosi alþjóðasamfélagið til að fordæma Kínverja vegna aðgerða þeirra í Tíbet og sagði að málið væri prófsteinn á samvisku heimsins.

Pelosi, sem jafnan er afar gagnrýnin í garð Kínverja, er fyrsti háttsetti embættismaðurinn sem heimsækir Dalai Lama frá því blóðug átök brutust út í Tíbet í síðustu viku milli mótmælenda og kínverskra hersins. Kínversk stjórnvöld viðurkenndu í fyrsta skipti í gærkvöldi, að skotið hefði verið á mótmælendur í höfuðborg Tíbets.

Pelosi hvatti í dag til þess, að alþjóðleg rannsókn fari fram á atburðunum í Tíbet. Hún tók einnig fram, að hún vildi ekki hvetja til þess að ólympíuleikarnir í Peking í ágúst verði sniðgengnir í mótmælaskyni eins og umræða hefur verið um.

Pelosi fer fyrir sendinefnd bandaríska þingsins í Dharmsala. Dalai Lama tók á móti henni og afhenti henni gullinn hálsklút. Hundruð manna stóðu meðfram veginum að bústað Dalais Lama og héldu á spjöldum þar sem m.a. stóð: Þökk fyrir stuðninginn, og Lengi lifi vinátta Bandaríkjanna og Tíbets. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka