Ríkisstjóri Nýju Mexíkó, Bill Richardson, styður Barack Obama í forkosningum Demókrataflokksins um frambjóðanda flokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember. Richardson hætti þátttöku í forvali demókrata í janúar.
Richardson, mun koma fram á kosningafundi með Obama í Portland í Oregon síðar í dag.
Yfirlýsing Richardson kemur í kjölfar birtinga skoðanakannana sem benda til þess að Hillary Clinton sé aftur komin með forskot á Obama í baráttunni. Næst verður kosið á milli Clinton og Obama í Pennsylvaníu þann 22. apríl og vonast Obama til þess að fleiri áberandi einstaklingar eigi eftir að greina frá því opinberlega að þeir styðji framboð hans fram að þeim tíma. Með því geti hann styrkt stöðu sína gagnvart Clinton.