Mörg hundruð manns tóku þátt í mótmælum í London í dag og kröfðust þess að kínversk yfirvöld létu af harkalegum aðgerðum gegn mótmælendum í Tíbet. Var numið staðar fyrir utan kínverska sendiráðið í borginni og þar sungnir tíbetskir söngvar.
Skipuleggjendur aðgerðanna sögðu að fimm til sex hundruð manns hafi tekið þátt í þeim. Kínversk stjórnvöld höfnuðu í dag beiðni um að koma til viðræðna við andlegan leiðtoga Tíbeta, Dalai Lama, og ítrekuðu að þau myndu mæta af fyllstu hörku þeim sem berjist gegn kínverskum yfirráðum í Tíbet.
Tala þeirra sem hafa fallið í átökum í Tíbet undanfarna daga er komin í 19, að því er kínversk stjórnvöld segja, en útlagastjórnin í Tíbet, sem situr á Indlandi, segir töluna nær 100.