Norðmenn gagnrýna Kína harðlega

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs. mbl.is/Brynjar Gauti

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, gagnrýnir Kínverja harðlega fyrir ofbeldisverk í Tíbet. Segir Støre í samtali við norska ríkisútvarpið, NRK, í dag að Norðmenn hafi komið því skýrt og greinilega á framfæri við Kínverja, að framferði þeirra í Tíbet sé óviðunandi.

Útlagastjórn Tíbeta hefur sagt, að 100 manns hafi látið lífið í átökum mótmælenda við kínverska hermenn í höfuðborg Tíbets í síðustu viku. Kínversk stjórnvöld segja að 19 hafi látið lífið.

Støre segir að norsk stjórnvöld hafi óskað eftir því að senda fulltrúa til Tíbet til að fylgjast þar með málum en því hafi Kínverjar hafnað.

Utanríkisráðherrann segir að alþjóðasamfélagið eigi að nota  ólympíuleikana, sem haldnir verða í Peking í ágúst, til að koma afstöðu sinni til mannréttindamála í Kína á framfæri. Hvetur hann einkum blaðamenn og aðra, sem ætla að ferðast til Kína vegna leikanna, að missa ekki sjónar á því sem er m.a. að gerast í Kína.

Hann segir, að Norðmenn verði að íhuga hvort þeir taki þátt í opnunarhátíð ólympíuleikanna en hann segist hafa miklar efasemdir um að það skili árangri að sniðganga leikana alfarið eins og umræða hefur verið um víða um heim að undanförnu.

Kínversk stjórnvöld sökuðu í morgun Dalai Lama, andlegan leiðtoga Tíbeta, um að skipuleggja mótmælaaðgerðir í Lhasa, höfuðborg Tíbets, með það fyrir augum að vekja andúð á Kínverjum og taka þannig ólympíuleikana í gíslingu. Dalai Lama vísaði þessu á bug í morgun og sagðist ávallt hafa stutt það, að ólympíuleikarnir verði haldnir í Kína. Kínverjar ættu skilið að halda leikana og ættu að vera stoltir af því.

Viðtal NRK við norska utanríkisráðherrann

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert