Palestínuríki löngu tímabært

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, kom í morgun til Ramallah á Vesturbakkanum og átti fund  með Mahmud Abbas, forseta Palestínumanna. Sagði Cheney eftir fundinn, að löngu væri tímabært að stofna sjálfstætt ríki Palestínumanna. 

„Eins og George W. Bush, forseti, hefur sagt, er stofnun Palestínuríkis löngu tímabært og palestínska þjóðin á það skilið," sagði Cheney.  

Bandaríski varaforsetinn átti í gær fundi með háttsettum ísraelskum embættismönnum með það að markmiði að örva friðarviðræður milli Ísraelsmanna og Palestínumanna, sem samið var um á ráðstefnu í nóvember. Málum hefur þó lítið þokast síðan þá.

Cheney sagði, að friðarsamkomulag Ísraelsmanna og Palestínumanna krefjist þess, að báðir aðilar geri sársaukafullar tilslakanir. En þjóðirnar verði að vinna saman til að sigrast á öfgamönnum, sem vilji beita ofbeldi. Var hann með þessu að vísa til Hamassamtakanna, sem ráða Gasasvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert