Kínverjar segja Pelosi skapvonda

Tíbetskir munkar á leið til Dongzhuling hofsins í Yunnan í …
Tíbetskir munkar á leið til Dongzhuling hofsins í Yunnan í Kína en hofið er um 50 km austur af landamærum Yunnan og Tíbets. AP

Yfirvöld í Kína hafa harðlega gagnrýnt Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og aðrar sjálfskipaðar mannréttindalöggur fyrir tvöfalt siðgæði og þekkingarleysi á því sem raunverulega sé að eiga sér stað í Tíbet. 

„Mannréttindalöggur eins og Pelosi eru venjulega skapvondar og illkvittnar í garð Kína. Þær neita að kynna sér staðreyndir og fara með rétt mál,” segir í yfirlýsingu sem Xinhua opinber fréttastofa kínverskra yfirvalda birti í dag.

„Viðhorf hennar eru eins og viðhorf svo margra annarra stjórnmálamanna og fjölmiðla á Vesturlöndum. Undir tvískinnungi þeirra býr vilji til að þjóna þeim hagsmunahópum sem að baki þeim standa og vilja draga Kína niður í svaðið.

Pelosi átti fund með Dalai Lama, andlegum leiðtoga Tíbeta í Dharmsala á Indlandi á föstudag en hún var fyrsti erlendi áhrifamaðurinn sem hitti hann frá því átök brutust út í Tíbet. Sagði hún m.a. að gagnrýni alþjóðasamfélagið ekki kúgum Kínverja í Tíbet hafi það “ misst allan siðferðislegan rétt til að tala um mannréttindi nokkurs staðar í heiminu, Kínversk yfirvöld hafa einnig sakað Dalai Lama fyrir að skipuleggja mótmælaaðgerðir í Tíbet til að  varpa skugga á undirbúning Ólympíuleikanna í Beijing í sumar og að reyna að grafa undan ráðamönnum í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert