Kínverskur andófsmaður var í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að krefjast mannréttinda í Kína. Maðurinn, sem heitir Yang Chunlin, var ákærður fyrir að grafa undan valdstjórninni en stjórnvöld í Kína nota oft slíkar ákærur til að bæla niður andóf.
Yang hafði safnað yfir 10 þúsund undirskriftum undir opið bréf sem bar yfirskriftina: Við viljum mannréttindi, ekki ólympíuleika.
Hann var handtekinn í júlí á síðasta ári í Heilongjianghéraði. Að sögn starfsmanna dómstóls í borginni Jiamusi féll dómurinn í dag en Yang getur áfrýjað honum.