Corazon Aquino, fyrrum forseti Filippseyja, er með ristilkrabbamein, að sögn dóttur hennar. Aquino, sem er 75 ára, komst til valda í friðsamlegri uppreisn filippseysku þjóðarinnar árið 1986 gegn Ferdinand Marcos, sem verið hafði einræðisherra um árabil. Varð Aquino táknmynd lýðræðis í hugum margra.
Aquino hefur tekið virkan þátt í félagslegum og pólitískum málum á Filippseyjum. Hún hefur m.a. tekið þátt í mótmælafundum nýlega þar sem krafist hefur verið afsagnar Gloriu Macapagal Arroyo, forseta landsins.
Aquino tók treg að sér hlutverk leiðtoga stjórnarandstöðunnar á Filippseyjum eftir að eiginmaður hennar, Benigno „Ninoy" Aquino Jr., var skotinn til bana á flugvellinum í Manila árið 1983 þegar hann kom heim úr útlegð.
Þremur árum síðar fóru fram forsetakosningar í landinu. Hundruð þúsunda manna tóku þá þátt í mótmælaaðgerðum og sökuðu Marcos um að hafa haft rangt við í kosningunum. Á endanum var Aquino sett í embætti forseta og Marcus flúði land og lést á Hawaii árið 1989. Aquino sat í embættinu til 1992.