Æðsti yfirmaður Bandaríkjahers í Írak segist hafa undir höndum sönnunargögn sem sýni fram á að Íranar hafi staðið á bak við árásir sem voru gerðar á græna svæðið svokallaða í Bagdad í dag.
Hershöfðinginn David Petraeus sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að hann telji að írönsk stjórnvöld hafi séð um að þjálfa, útbúa og fjármagna uppreisnarmenn sem gerðu eldflaugaárásir á græna svæðið í Bagdad, en þar er Bandaríkjaher með gríðarlega öryggisgæslu.
Stjórnvöld í Íran hafa enn ekki tjáð sig um yfirlýsingar hershöfðingjans.
Fram kemur á vef BBC þegar Petraeus var spurður út í það að 4.000 bandarískir hermenn hafi fallið í Írak sagði hann að mannfallið sýni fram á hvað hernaðaraðgerðirnar hafi kostað. Hann bætti því hins vegar við að Bandaríkjamenn séu raunsæir hvað stríðið varðar.
Hann segir að gríðar margt hafi áunnist þar sem mörg samfélög súnníta í landinu hafi ákveðið að snúast gegn al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum. Petraeus bendir á að þetta hafi komið mörgum á óvart, jafnvel Bandaríkjaher.
„Eldflaugunum sem var skotið á græna svæðið [...] koma frá Íran og voru smíðaðar í Íran,“ sagði hann og bætti við að írönsku Quds-hersveitirnar hafi þjálfað og fjármagnað þá sem gerðu árásina.
„Þetta er þvert á þau loforð sem Ahmadinejad forseti og aðrir háttsettir leiðtogar Írans gáfu starfsbræðrum sínum í Írak.“
Eldflaugaárásin var gerð á græna svæðið í morgun að staðartíma. Sumar eldflauganna fóru fram hjá og urðu 15 saklausum borgurum að bana.