Danski þjóðarflokkurinn hefur hvatt Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, til að mótmæla aðgerðum kínverskra stjórnvalda í Tíbet með því að hætta við þátttöku Dana í Ólympíuleikunum í Peking.
Kristian Thulesen Dahl, þingflokksformaður Danska þjóðarflokksins, segir Dani ekki eiga að taka þátt í leikunum. Stjórnvöld megi ekki horfa fram hjá því sem sé að gerast í Tíbet og að forsætisráðherrann geti ekki forðast umræðuna.
„Nú nýverið höfum við heyrt ásakanir Kínverja um að það sé Dalai Lama, trúarleiðtogi Tíbeta, sem standi á bak við óeirðirnar. Þessar fáránlegu fullyrðingar sýna fram á styrk kínversku áróðursvélarinnar, og Danir eiga ekki að taka þátt í þessu,“ segir Dahl.