400 manns sátu fastir í Lundúnaauganu

Lundúnaaugað.
Lundúnaaugað. AP

Fjögur hundruð manns sátu föst inni í klefum Lundúnaaugans í klukkutíma, á meðan viðgerðir voru framkvæmdar í gær.  Bilun í hjólinu kom upp síðdegis í gær og ákveðið var að stoppa hjólið á meðan á viðgerð stóð.  Viðgerðarmenn fjarlægðu eitt af fjórum vélrænum hjólum og gerðu við, áður en hjólið var sett aftur í gang.   

Fram kemur á fréttavef BBC að fólkið sem sat fast hafi fengið leiðbeiningar í gegnum kallkerfi um að opna neyðarbirgðir af vatni, og teppum, á meðan gert var við bilunina.  Að sögn talsmanns Lundúnaaugans var rætt við gesti hjólsins og þeim sagt frá því hvað væri að gerast, en sumir gestanna voru ekki sammála því og kvörtuðu yfir sambandsleysi og að starfsfólk hafi annast málið illa.

Lundúnaaugað er staðsett við ána Thames í miðborg Lundúna og er 135 metrar á hæð en meira en 27 milljónir manns hafa notið útsýnis yfir Lundúnaborg í hjólinu frá því það opnaði árið 2000.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert