Clinton sökuð um ýkjur

Hillary Rodham Clinton ásamt stuðningamönnum sínum á kosningafundi í gær.
Hillary Rodham Clinton ásamt stuðningamönnum sínum á kosningafundi í gær. AP

Talsmaður Hillary Rodham Clinton, sem berst fyrir því að verða forsetaefni bandaríska demókrata í næstu forsetakosningum í landinu, segir hana hafa mismælt sig er hún sagði á kosningafundi frá því er hún og dóttir hennar hlupu undan kúlnahríð í Bosníu í mars árið 1996. 

Stuðningsmenn Baracks Obama, keppinautar hennar, segja forsetafrúnna fyrrverandi, vísvitandi ýkja reynslu sína í alþjóða- og  í utanríkismálum en Clinton hefur áður fjallað opinberlega um umrædda heimsókn sína til Bosníu og ekki minnst á umrædda skothríð. Þá eru sjónvarpsupptökur frá atvikinu sem hún vísaði til ekki í samræmi við frásögn hennar nú. 

„Ég man eftir því að hafa lent í kúlnahríð frá leyniskyttum. Það átti að vera einhvers konar móttökuathöfn á flugvellinum en þess í stað hlupum við með höfuðin kýld niður að bílunum til að komast til áfangastaðar okkar,” sagði Clinton sagði í ræðu sem hún hélt í gær.     

Í ævisögu sinni „Living History" segir hún hins vegar að þar sem leyniskyttur hafi verið í nágrenni flugvallarins hafi móttökuathöfnin verið styttri en upphaflega stóð til og að mæðgurnar hafi því ekki getað varið þeim tíma með innfæddum börnum sem til hafi staðið. Þær hafi þó náð að hitta börnin og kennara þeirra og fræðast um það hversu hart þau hafi lagt að sér við að sinna náminu þrátt  fyrir stríðsátökin í landinu.

„Þetta er það sem fram kemur í bók hennar og þetta er það sem hún hefur ítrekað sagt,” segir talsmaður hennar. „Í eitt skipti mismælti hún sig.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert