Jeppe Kofod, talsmaður danskra jafnaðarmanna í utanríkismálum, tilkynnti í dag að hann hefði sagt af sér eftir að greint var frá því að hefði átt í kynferðislegu sambandi við fimmtán ára gamla stúlku í Esbjerg um páskahelgina. Þetta kemur fram á fréttavef Ekstra Bladet.
„Ég var gestakennari á námskeiði ungliðahreyfingar flokksins á föstudag og í boði þá um kvöldið missti ég algerlega dómgreindina og átti samskipti við fimmtán ára gamla stúlku sem voru siðferðislega röng. Ég einn ber ábyrgð á þessu atviki sem ég iðrast sáran,” sagði hann er hann tilkynnti um afsögn sína.
Þá sagðist hann hafa gert Carsten Hansen, þingsflokksformanni flokksins grein fyrir því að hann ætlaði að taka sé umhugsunarfrest áður en hann geri upp við sig hvaða stefnu hann taki varðandi pólitíska framtíð sína. Samkvæmt heimildum Ekstra Bladet mun hann þó halda þingsæti sínu. Kofod, sem er 34 ára læknir, hefur verið álitin ein skærasta vonarstjarna danskra jafnaðarmanna. Hann er sá danski þingmaður sem hefur notið mests stuðnings í heimakjördæmi sínu Bornholm,. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1998 og var einn yngsti þingmaðurinn í sögu Danmerkur er hann var fyrst kjörinn á þing þá tæplega 24 ára gamall.