Stjórnvöld í Kína segjast hafa skipulagt ferð fyrir um tíu valda erlenda blaðamenn til Lhasa, höfuðborgar Tíbets.
„Við höfum skipulagt ferð fyrir blaðamenn til þess að þeir skilji atburðina sem hafa gerst þar," segir Qin Gang talsmaður utanríkisráðuneytisins í Kína. „Skipuleggjendur munu undirbúa viðtöl við fórnarlömb glæpsamlegra verknaða," sagði Gang en fulltrúar fjölmiðla munu fara til Lhasa á morgun.
Kínverjar hafa gagnrýnt erlenda fjölmiðla fyrir að vera með hlutdræga umfjöllun í fréttaskýringum á mótmælunum í Tíbet og umhverfis Tíbet. Mótmæli hófust þann 10. mars og átök brutust út í Lhasa og fleiri borgum en kínversk yfirvöld segjast hafa bannað erlendum fjölmiðlum að fara á átakasvæði, af öryggisástæðum.