Forseti Bandaríkjanna George W. Bush ætlar sér að mæta á ólympíuleikana í Peking þrátt fyrir óeirðirnar í Tíbet og mögulega sniðgöngu forseta Frakklands Nicholas Sarkozy.
„Síðast þegar ég athugaði þá ætlaði hann að mæta á svæðið,“ sagði Dana Perino, talsmaður Hvíta hússins. Hún ítrekaði að ólympíuleikarnir gefi gestgjafanum tækifæri til að „setja upp spariandlitið og þetta er tækifæri hjá Kína til að gera það.“
Sarkozy vildi í dag ekki gefa það út endanlega hvort hann myndi sniðganga opnunarhátíðina þann 8. ágúst nk. „Ég er ekki búinn að ákveða mig ennþá og ég reyni að höfða til ábyrgðartilfinningar kínverskra stjórnvalda,“ sagði hann og hefur hvatt til þess að stjórnvöld hefji samræður við Dalai Lama og reyni að leysa deilurnar um Tíbet.