Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi í dag þann úrskurð að yfirvöldum í Texas sé heimilt að lífláta mexíkóskan mann sem þar er á dauðadeild. Hafnaði rétturinn þar með kröfu George W. Bush forseta um að réttað yrði á ný í máli mannsins og honum ákvörðuð önnur refsing.
Dauðamaðurinn heitir Jose Ernesto Medellin. Hann hlaut líflátsdóm fyrir tvö morð.
Fyrir Hæstarétti lá að úrskurða um hvort yfirvöldum í Texas væri nauðugur einn kostur að verða við kröfu forsetans um ný réttarhöld yfir manninum.
Bush féllst á að leggja fram kröfu þar um eftir að alþjóðlegur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að Medellin hefði ekki verið veitt tækifæri til að hafa samband við mexíkóska sendiráðið áður en hann var fyrst ákærður, og þar með hefðu bandarísk yfirvöld brotið gegn ákvæðum samnings sem þau undirrituðu fyrir mörgum áratugum.
Sex af níu hæstaréttardómurum tóku afstöðu með yfirvöldum í Texas, en þrír með Bush. Forseti réttarins, John Roberts, sagði í áliti meirihlutans, að úrskurður alþjóðadómstólsins væri „ekki landslög,“ og því hefði Bush takmarkað vald til að krefjast nýrra réttarhalda.