Dimitry Medvedev, nýkjörinn forseti Rússlands, segir rússnesk yfirvöld ekki ánægð með það að Úkraína og Georgía hafi áform um að ganga í Atlantshafsbandalagið, NATO. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Í viðtali við Financial Times segir Medvedev að slík skipan gæti haft áhrif á öryggismál í Evrópu. Medvedev segir að ekkert land geti verið ánægt með að hafa hernaðarsamtök, sem það tilheyri ekki sjálft, við landamæri sín. Aðild fyrrum Sovétlýðveldanna Georgíu og Úkraínu verður líklega rædd á leiðtogafundi NATO í Búkarest í Rúmeníu í næstu viku.
Mikhail Saakashvili, forseti Georgíu komst til valda árið 2003. Hann vill efla tengsl við Vesturlönd og hefur sakað rússneska stjórnmálamenn um að skipta sér af málum Georgíu.