Fram kemur á fréttavef BBC að Kínverjar geti nú opnað fréttavef breska ríkisútvarpsins eftir margra ára strangt eftirlit kínverskra stjórnvalda. Kínverska ríkistjórnin lokar reglulega fyrir erlendar fréttavefsíður og hefur verið uppnefnd „hinn mikli eldmúr Kína."
Starfsmenn BBC sem eru staddir í Kína segjast nú geta opnað fréttir sem hafa áður verið lokaðar, og kínverski fréttavefurinn Danwei segir einnig frá því að BBC fréttasíðan sé opin án nokkurra takmarkana.
Yfirvöld í Kína hafa lofað því að gefa erlendum blaðamönnum meira frelsi á meðan á undirbúningi Ólympíuleikanna í Peking stendur, en þeir verða haldnir í Peking í sumar.