Forsíður allra helstu dagblaða í Slóvakíu voru auðar í morgun að undanskilinni yfirlýsingu þar sem væntanlegum fjölmiðlalögum er mótmælt. Gert er ráð fyrir að þing landsins samþykki lagafrumvarp í næstu viku en þarlendir fjölmiðlar líta svo á, að með lögunum sé verið að setja skorður við málfrelsinu.
Í yfirlýsingunni, sem blöðin birtu, er fjallað um það sem útgefendur blaðanna kalla sjö syndir fjölmiðlafrumvarpsins. Það sem einkum er gagnrýnt er ákvæði um að blöð verði birta athugasemdir frá þeim, sem nefndir eru í fréttum og greinum, innan þriggja daga frá upphaflegu fréttinni.
Segja gagnrýnendur að þetta veiti stjórnmálamönnum tækifæri til að misnota fjölmiðla og muni valda því að athugasemdir og greinar flæði yfir blöðin.
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, hefur m.a. gagnrýnt frumvarpið, sem á að leysa af hólmi lög frá árinu 1966 þegar kommúnistar fóru með völd. Stjórnarandstaðan á slóveska þinginu kom í veg fyrir það í síðustu viku, að greidd yrðu atkvæði um nýjan stjórnarsáttmála. Kröfðust stjórnarandstæðingar að stjórnarflokkarnir breyttu fjölmiðlafrumvarpinu.