Fleiri bandarísk skjöl opnuð án heimildar

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur beðist afsökunar á málinu.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur beðist afsökunar á málinu. Reuters

Innanhúsrannsókn bandaríska utanríkisráðuneytisins hefur leitt í ljós að reglur um aðgang að vegabréfsupplýsingum hafa verið brotnar í fleiri tilfellum en áður var talið.  Hafa starfsmenn ráðuneytisins m.a. skoðað upplýsingar um fyrirsætuna Önnu Nicole Smith, sem lést á síðasta ári. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Samkvæmt heimildum AP fréttastofunnar er rannsókninni ekki lokið en um er að ræða upplýsingar um hundruð þekktra Bandaríkjamanna, sem eiga að njóta sérstakrar upplýsingaleyndar vegna stöðu sinnar.

Í umræddum upplýsingum er m.a. að finna fæðingardag og fæðingarstað viðkomandi einstaklinga auk einkennisnúmers þeirra en slíkt númer veitir aðgang að ýmsum viðkvæmum upplýsingum í bönkum og stofnunum í Bandaríkjunum. 

Þrír starfsmenn eru sagðir hafa opnað upplýsingar um McCain, Obama og Clinton í heimildarleysi en ekki er ljóst hvort þeir tengjast þeim málun sem síðar hafa komið upp eða hvort fleiri einstaklingar tengjast þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert