Vinsældir Hillary Clinton minnka

Hillary Clinton
Hillary Clinton Reuters

Vinsældir Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, hafa farið minnkandi, samkvæmt nýrri skoðunarkönnun hjá NBC og The Wall Street Journal. Fylgi hennar er talið hafa minnkað eftir að hún viðurkenndi mistök sín er hún sagðist hafa flúið skotárás frá leyniskyttum í heimsókn sinni til Bosníu árið 1996.

Einnig kom í ljós að Barack Obama, mótframbjóðandi Clinton, nýtur minni vinsælda. Mörgum finnst hann ekki hafa fordæmt ummæli sóknarprestsins Jeremiah Wright nógu harkalega og greinilegt er að upptökur frá prédikunum Wrights, sem fjölmiðlar hafa verið iðnir við að sýna, hafa farið fyrir brjóstið á mörgum.

Séu frambjóðendur demókrata bornir saman við forsetaefni Repúblikanaflokksins, John McCain, kemur í ljós að Obama er með 44% fylgi á móti 42% fylgi hjá McCain en McCain hefur 46% fylgi á móti 44% fylgi hjá Clinton.

700 skráðir kjósendur tóku þátt í þessari könnun og voru skekkjumörkin 3,7%, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert