Forseti Kúbu hefur heimilað Kúbumönnum að eignast farsíma en hingað til hafa farsímar að mestu verið fráteknir fyrir útlendinga og ríkisstarfsmenn. Þessu greindi fjarskiptafyrirtæki ríkisins frá í dag.
Farsímar hafa þegar verið áberandi í Kúbu en hingað til hafa Kúbumenn þurft að fara krókaleiðir til að eignast þá. Fara þurfti í gegnum þriðja aðila og ekki var hægt að fá þjónustusamning á eigin nafni. Fjarskiptafyrirtækið ETECSA greindi frá því að það væri að bjóða farsímaþjónustu til almennings í gegnum fyrirfram greidda samninga í erlendri mynt. „Á næstu dögum verða breytingarnar skýrðar fyrir almenningi,“ stóð í tilkynningunni.
Almenn farsímaeign var eitt málefni af mörgum sem Kúbumenn vonuðust eftir að ná í gegn eftir að Raul Castro tók við forsetaembættinu eftir tæplega 50 ára stjórn bróður hans, Fidel.