Að minnsta kosti fjórir létu lífið og átján slösuðust er átök brutust út á milli stuðningsmanna sjítaklerksins Muqtada al-Sadr og íraskra öryggissveita í bænum Nasiriya í suðurhluta Íraks í dag. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Þá létu fjórir lífið í loftásárum bandaríska herliðsins í Írak á Sadr City í Bagdad í dag.Bandaríska herliðið gerði einnig loftárásir á bækistöðvar uppreisnarmanna í Basra í suðurhluta landsins síðastliðna nótt en í morgun framlengdu yfirvöld í Írak frest, sem þau höfðu gefið herskáum uppreisnarmönnum í borginni til þess að leggja niður vopn.
Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, segir í yfirlýsingu að yfirvöld muni bjóða þeim uppreisnarmönnum sem gefa sig fram, reiðufé í stað vopna. „Allir þeir sem hafa þungavopn undir höndum, ættu að skila þeim til öryggissveita, og fá greiðslu í staðinn, á tímabilinu frá 28. mars til 8. apríl," segir í yfirlýsingu frá Maliki.
Á miðvikudag, gaf Maliki, herskáum sjítamúslimum sem berjast við íraskar öryggissveitir, þriggja sólarhringa frest til þess að leggja niður vopn, en sá frestur hefði runnið út á morgun hefði hann ekki verið framlengdur.