Leiðtogar Arabaríkja og múslíma fordæmdu í dag hollensku kvikmyndina „Fitna" sem lýsir íslamstrú sem tifandi tímasprengju sem beinist gegn vestrænum löndum. Leiðtogarnir hafa farið fram á alþjóðleg lög sem hindri slíkar ærumeiðingar í garð trúarbrögðum.
Frá því að „Fitna" var frumsýnd á netinu á fimmtudaginn hefur birtingu hennar verið líkt við skopmyndabirtingu í dönskum dagblöðum þar sem grín var gert að spámanninum Múhameð.
Í ræðu sinni við opnun leiðtogafundar Arabaríkja í Damaskus sagði forseti Súdans, Omar al-Bashir að múslímar þyrftu að skora á þá sem móðga spámanninn og stakk hann upp á bindandi alþjóðalögum sem hindri ærumeiðingar í garð trúarbragða og knýi fram virðingu fyrir trúarbrögðum manna.
Utanríkisráðherra Egypta, Ahmed Aboul Gheit sagði kvikmynd Wilders niðurlægja Íslam.
Samtök íslamskra þjóða í Jeddah sögðu myndina vera ætlaða sem eldsneyti hatursmanna Íslams og hvetja til ofbeldis og ógna öryggi og stöðugleika heimsins.
Mörg hundruð múslíma hafa tekið þátt í mótmælum gegn myndinni í Pakistan og utanríkisráðherra landsins kallaði hollenska sendiherrann á sinn fund til að koma á framfæri opinberum mótmælum gegn henni.