„Fitna" fjarlægð af netinu

Kvikmynd Geert Wilders var fjarlægð eftir að hótanir bárust.
Kvikmynd Geert Wilders var fjarlægð eftir að hótanir bárust. Reuters

Vefsíðan LiveLeak hefur ákveðið að fjarlægja kvikmynd Geert Wilders, „Fitna" einum sólarhring eftir að hún var sett á vefinn. Starfsfólki hafi borist hótanir og segir í tilkynningu frá aðstandendum síðunnar að þetta sé sorglegur dagur fyrir málfrelsi á netinu en segjast verða að taka tillit til öryggis starfsfólksins.

Á vefsíðu norska dagblaðsins Aftenposten kemur fram að kvikmyndin sem er ákaflega neikvæð í garð múslíma og múhameðstrúar gangi enn manna á milli á vefsíðum þar sem fólk skiptist á tölvuskrám og efni.
Kvikmyndin var gerð af íhaldsmanninum og hollenska stjórnmálamanninum Geert Wilders. Í myndinni sem er 15 mínútur að lengd blandar hann meðal annars saman myndum af hryðjuverkum í Bandaríkjunum, London, Madrid og víðar við vers úr Kóraninum.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna hefur fordæmt myndina fyrir að kynda undir hatur og ofbeldisaðgerðir. Hann segir hana ekki fjalla um málfrelsi á nokkurn hátt.

Hollenska ríkisstjórnin hefur sömuleiðis gefið út yfirlýsingar þess efnis að hún sé ekki sammála innihaldi þessarar myndar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka