Selveiðimenn létu lífið í Kanada

Þrír selveiðimenn létu lífið og þess fjórða er saknað í St. Lawrenceflóa í Kanada eftir að báti hvolfdi. Tveimur mönnum var bjargað. Þetta er fyrsta banaslysið, sem orðið hefur á þessu svæði frá árinu 1990 í tengslum við árlega selveiði í Kanada.

Verið var að draga bátinn til lands vegna bilunar sem varð í stýrisbúnaði þegar honum hvolfdi undan austurströnd Kanada. Sextán bátar fóru til selveiða frá bænum Cap-Aux-Meules í gær þegar selveiðitímabilið hófst en áhafnir hinna bátanna hafa ákveðið að snúa til hafnar vegna slyssins.

Aðstæður til veiða eru erfiðar, slæmt veður og mikill ís á flóanum. Veiðikvótinn er 275 þúsund selir, 5000 fleiri en á síðasta ári. Um 800 selir veiddust í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert