Kyndill með Ólympíueldinum var í dag afhentur kínverskum embættismönnum við hátíðlega athöfn á Panathinaiko leikvanginum í Aþenu þar sem fyrstu Ólympíuleikarnir fóru fram 1896. Lítill hópur mótmælenda reyndu að brjótast framhjá lögreglu og inn á leikvanginn.
Þúsundir áhorfenda komu saman er kyndillinn var afhentur og loginn var færður yfir í lampa sem síðan verður fluttur með flugvél til Kína.
Hvar sem kyndillinn kom á leið sinni frá Ólympíu til Panathinaiko í Grikklandi voru mótmælendur sem vildu vekja athygli á mannréttindabrotum Kína og aðstæðum í Tíbet.
Loginn var kveiktur í Ólympíu 24. mars en það verður tekið á móti honum með viðhöfn á Torgi hins himneska friðar í Peking á morgun. Síðan mun hann heimsækja 20 lönd áður en honum verður skilað aftur til Kína fyrir opnun leikanna þann 8. ágúst.