Íraski sjíaklerkurinn Moqtada Sadr hefur skipað herskáum liðsmönnum sínum að hverfa af götum Basra sem og í öðrum borgum í Írak og hætta bardögum við öryggissveitir landsins.
Í tilkynningu sem barst frá honum sagðist hann vilja stöðva blóðabaðið sem átt hefur sér stað í Írak og viðhalda sjálfstæði og stöðugleika þjóðarinnar.
Samkvæmt fréttavef BBC sagði ríkisstjórnin að þetta væri jákvæð þróun en frestur sem hún hafði sett hinum herskáu fylgismönnum Sadr er útrunninn. Ríkisstjórnin ætlaði að greiða þeim reiðufé fyrir þau vopn sem þeir skiluðu inn.
Enn er í gildi útgöngubann í Bagdad og hefur það verið lengt um óákveðinn tíma, því hafði átt að ljúka snemma í morgun.