George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði í dag að bandarísk stjórnvöld styddu af ráðum og dáð umsókn Úkraínu um aðild að NATO. Bush kom til Kænugarðs í gær og átti í morgun viðræður við Viktor Jútsjenkó, forseta Úkraínu.
„Úkraína vill dýpka samvinnu sína við Atlantshafsbandalagið með aðildaráætlun. Úkraína hefur tekið djarfa ákvörðun og Bandaríkin styðja heilshugar þessa ósk ykkar," sagði Bush á blaðamannafundi með Jútsjenkó.
Bush sagði að Bandaríkin styddu einnig aðildarumsókn Georgíu og vildu að bæði löndin geri svonefndan MAP samning við NATO um að stefnt sé að því að ríkin verði aðilar að bandalaginu með tíð og tíma.
Ársfundur NATO verður í Búkarest í Rúmeníu í vikunni. Bandarískir embættismenn segja, að Bush muni þar þrýsta á að því verði lýst yfir að stefnt sé að því að Georgía og Úkraína fái aðild.