Kínverjar segja Tíbeta skipuleggja árásir

Kínverskir hermenn í Tíbet.
Kínverskir hermenn í Tíbet. Reuters

Kínversk lögregla segir tíbetska útlaga undirbúa sjálfsvígsárásir í baráttu sinni fyrir sjálfstæði landsins.  Wu Heping, talsmaður opinberra öryggismála, segir að tíbetskir aðgerðasinnar hafi skipulagt árásir og að þeir óttist hvorki  blóðbað né að fórna sér fyrir málstaðinn.

Wu tengir meint áform um sjálfsvígsárásir við Dalai Lama, andlegan leiðtoga Tíbeta, og sjálfstæðishreyfinguna „Tibetan People's Uprising Movement" og segir m.a að sprengiefni hafi fundist í munkaklaustrum í Tíbet.  Wu segir hreyfinguna vera setta saman af útlagastjórn Tíbeta, sem vilja þrýsta á Kínverja áður en Ólympíuleikarnir eru haldnir í Peking í sumar.

Fullyrðingar Wu koma í kjölfar ásakana kínverskra yfirvalda gegn Dalai Lama, en þau saka hann um að hafa skipulagt mótmælaaðgerðir gegn kínverskum stjórnvöldum sem leiddu til blóðugra átaka í Lhasa, höfuðborg Tíbets, í síðasta mánuði.

Dalai Lama hefur staðfast neitað því að vera ábyrgur fyrir aðgerðunum, og fordæmdi oftar en einu sinni átökin sem brutust út.  Hann lýsti því einnig yfir að hann sækist ekki eftir fullu sjálfstæði Tíbet, heldur að þjóðirnar geti unnið saman við að ná sáttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert