Alexander Stubb var í dag útnefndur utanríkisráðherra Finnlands og kemur hann í stað Ilkka Kanerva, sem neyddist til að segja af sér eftir að hann hafði sent nektardansmær textaboð í síma.
Stubb, sem varð fertugur í dag, hefur setið á Evrópuþinginu fyrir Þjóðarbandalagið, sem á aðild að finnsku stjórninni. Sagði Jyrki Katainen, leiðtogi flokksins, að Stubb hefði orðið fyrir valinu sem utanríkisráðherra vegna mikillar þekkingar sinnar á utanríkismálum og Evrópusambandinu.
Kanerva, sem er sextugur, neyddist til að segja af sér eftir að í ljós kom að hann hafði sent 200 SMS skilaboð til 29 ára gamallar nektardansmeyjar sem hann hitti í janúar. Kanerva þrætti lengi fyrir að hafa sent boðin en viðurkenndi það loks 10. mars þegar hann sótti ráðherrafund í Brussel.