Pelosi vill skjóta sátt um frambjóðanda

Barack Obama á kosningafundi á mánudag.
Barack Obama á kosningafundi á mánudag. AP

Demókratinn Nancy Pelosi, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, hefur hvatt til þess að innanflokksbarátta um það hver verði næsti forsetaframbjóðandi flokksins verði til lykta leidd. Pelosi, sagði í viðtali á ABC News að nauðsynlegt sé að flokkurinn sameinist um einn frambjóðanda sem fyrst ætli hann sér að sigra forsetakosningarnar í nóvember. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Pelosi greindi ekki frá því hvorn af tveimur frambjóðendum flokksins hún styddi en Hillary Rodham Clinton hefur að undanförnu sætt þrýstingi um að draga sig í hlé þar sem keppinautur hennar Barack Obama hefur fram að þessu tryggt sér meira fylgi í prófkjörum flokksins. Samkvæmt skoðanakönnunum nýtur Clinton hins vegar meira fylgis en Obama í þeim prófkjörum sem  framundan eru á næstu vikum. 

Howard Dean, formaður demókrataflokksins hefur einnig lýst því yfir að hann vilji að niðurstaða í málinu liggi í síðasta lagi fyrir í byrjun júlí. Sjálfur hefur Obama hins vegar lýst því yfir að hann telji að baráttan eigi að halda áfram á meðan þau Clinton hafi bolmagn til og stuðningsmenn þeirra standi með þeim. 

Sögusagnir eru nú á kreiki um að fjárskortur sé aftur farinn að hafa áhrif á  kosningabaráttu Clinton en í upphafi þessa árs lánaði hún framboðssjóði sínum fé til að standa undir áframhaldandi kosningabaráttu.  

Obama hefur þegar tryggt sér stuðnings 1.631 kjörmanna en Clinton nýtur stuðnings 1.501 kjörmanna. Frambjóðendurnir þurfa að tryggja sér stuðning 2.024 kjörmenn til að bera sigur úr býtum í kjöri um forsetaframbjóðanda flokksins á landaþingi hans í ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert