Lögfræðingur McCann hjónanna segir að leynd verði sennilega aflétt innan tveggja vikna af gögnum portúgölsku lögreglunnar varðandi rannsóknina á hvarfi á dóttur þeirra Madeleine McCann í maí á síðasta ári. Sú lagalega leynd sem hvílt hefur yfir gögnunum hefur gert það að verkum að hjónin hafa ekki haft aðgang að upplýsingum um það hvað liggur að baki því að þau hafa réttastöðu grunaðra í málinu. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Lögfræðingurinn Rogerio Alves segir að samkvæmt portúgölskum lögum eigi að aflétta leyndinni þann 14. apríl. Hægt er að framlengja slíka lengd en það hefur fram til þessa einungis verið gert í málum sem hryðjuverkastarfsemi og skipulagða glæpastarfsemi.
Kate og Gerry McCann fengu réttarstöðu grunaðra í málinu í september á síðasta ári en hörð gagnrýni hefur komið fram á framkomu og störf lögreglu í málinu.Ekkert hefur spurst til Madeleine frá því hún hvarf úr sumarleyfisíbúð fjölskyldunnar þar sem hún svaf eftirlitslaus ásamt tveimur yngri systkinum sínum.
Greint var frá því í vikunni að til stæði að portúgalskir lögreglumenn yfirheyrðu sjö vini hjónanna að nýju en um er að ræða vini þeirra sem voru með McCann hjónunum á matsölustað í nágrenni sumarleyfisíbúðarinnar, kvöldið sem Madeleine hvarf.