Hirsi Ali segir yfirvöld vantreysta múslímum

Hirsi Ali.
Hirsi Ali. AP

Baráttukonan Ayaan Hirsi Ali hefur gagnrýnt yfirvöld í Hollandi harðlega vegna framkomu þeirra í tengslum við gerð og sýningu myndarinnar  „Fitna" sem þykir mjög neikvæð í garð íslam. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Hirsi Ali, sem er fyrrum þingmaður í Hollandi, segir að með framkomu sinni hafi hollenska stjórnin gert lítið úr tjáningarfrelsinu og móðgað hollenska múslíma.

Yfirvöld í Hollandi lýstu því yfir áður en myndin var frumsýnd að þau viðhorf sem fram kæmu í myndinni væru ekki viðhorf yfirvalda í landinu. Þá baðst Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra landsins, afsökunar á myndinni, eftir að hún var frumsýnd á netinu í síðustu viku.

„Hollenska stjórnin reyndi með virkum hætti að þagga niður í kjörnum fulltrúa þingsins,” segir Hirsi Ali. „Það að stjórnarandstaðan skuli ekki hafa gagnrýnt þessa tilburði til ritskoðunar er meira áhyggjuefni en nokkuð það sem fram getur komið í nokkurri mynd um íslam.”

Þá segir hún að mun eðlilegra hefði verið að hollensk yfirvöld hefðu beðið með að tjá sig um málið þar til eftir að myndin var frumsýnd og að með viðbrögðum sínum hafi þau svo gott sem tekið að sér markaðssetningu myndarinnar.

Sjálf segist hún telja myndina kurteislega og varpa fram spurningum sem eigi fullan rétt á sér. Hún telji því hollensku stjórnina hafa sýnt múslímum mun meiri dónaskap en „lýðræðislega kjörinn þingmann sem sett hafi fram sársaukafullar spurningar um trú þeirra." Öll framkoma stjórnarinnar í málinu sýni svart á hvítu að hún vantreysti múslímum á sama tíma og hún lýsi því yfir að hún virði þá.  Ayaan Hirsi Ali skrifaði handrit myndarinnar „Submission" sem er mjög gagnrýnin í garð íslam en leikstjóri myndarinnar Theo van Gogh var stunginn til bana á götu í Amsterdam árið 2004. Hún býr nú í Bandaríkjunum þar sem hún nýtur stöðugrar lögregluverndar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert