Meira en tvær milljónir barna um allan heim voru smituð af HIV veirunni árið 2007 og flest þeirra voru smituð af veirunni áður en þau komu í heiminn. Þetta kemur fram í nýrri sameiginlegri skýrslu, mannúðarsamtaka Sameinuðu þjóðanna.
Árið 2007 létust 290.000 börn undir 15 ára aldri og 12,1 milljón barna í löndum sunnan Sahara eyðimerkurinnar í Afríku, misstu annað eða báða foreldra vegna sjúkdómsins.
Ann Veneman, framkvæmdastjóri UNICEF, segir að börn og unga fólk nútímans þekki ekki heiminn án alnæmi. Í skýrslunni er bent á leiðir til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins, en helst var nefnt mikilvægi þess að sjúkdómurinn berist ekki til barna frá móður, fyrirbygging útbreiðslu á meðal ungs fólks, og að ráðstafanir verði gerðar til þess að þau börn sem eru smituð fái aðstoð og meðferð.
Í skýrslunni kemur fram að árangur hafi náðst á mörgum sviðum, í löndum eins og Botsvana, Brasilíu, Rúanda, Suður-Afríku og Taílandi, en að mikil vinna sé enn fyrir höndum.