Lögregla réðst inn á skrifstofur stjórnarandstöðunnar í Zimbabwe í dag og leitaði þar í ýmsum vistarverum. Sagði framámaður í flokki stjórnarandstæðinga að þetta væri upphafið að hörðum aðgerðum stjórnvalda gegn stjórnarandstöðunni í kjölfar kosninganna í landinu um síðustu helgi. Ennfremur voru þrír eða fjórir fréttamenn handteknir.
Flokkur stjórnarandstæðinga, Lýðræðishreyfingin, hefur lýst yfir sigri í forsetakosningunum. Kjörstjórn hefur gefið út endanleg úrslit þingkosninganna, sem fóru fram samhliða forsetakosningunum, en ekki birt lokatölur úr forsetakosningunum.
Lögreglumenn fóru inn á skrifstofur Lýðræðishreyfingarinnar á hóteli í miðborg Harare, og umkringdu einnig hótel sem erlendir fréttamenn dvelja á, og að sögn heimildamanns þar fór lögreglan á brott með nokkra fréttamenn.