Ayman al-Zawahri, næstráðandi Osamas bin Ladens í hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda, segir í nýju ávarpi á netinu að bin Laden sé við góða heilsu og fréttir af heilsubresti hans hafi verið rangar. Al-Zawahri fordæmdi Sameinuðu þjóðirnar og hét því að ráðast á gyðinga í Ísrael og utan þess.
„Sameinuðu þjóðirnar eru óvinur íslam og múslima," sagði hann. „Þau hafa lögleitt stofnun Ísraels og heimilað að land múslima sé tekið... Þau hafa lögleitt að krossfarar séu í Afganistan," sagði hann. Ávarpið, sem birt var á netinu, tekur 104 mínútur í flutningi.
Talið er að al-Zawahri sé í Afganistan eða Pakistan líkt og bin Laden.