Ekkert hefur spurst til áhafnar franskrar snekkju sem sjóræningjar tóku á sitt vald úti fyrir Sómalíu í gær, að því er frönsk stjórnvöld greindu frá í dag. Um þrjátíu manna áhöfn var um borð í snekkjunni, en engir farþegar.
Sjóræningjar fóru um borð í snekkjuna Le Ponant á Adenflóa, sem er við mynni Rauðahafs, og tóku hana á sitt vald, en snekkjan er 850 tonn og þrímastra. Var hún á leið til Miðjarðarhafsins frá Indlandshafi.
Útgerð snekkjunnar segir að flestir í áhöfninni hafi verið Frakkar, en einnig voru Úkraínumenn á.
Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands, sagði að bæði varnarmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið hefðu gert ráðstafanir til að frelsa áhöfnina.