Ólympíueldurinn í Lundúnum

Farið verður með ólympíueldinn um höfuðborg Bretlands, Lundúnir, í dag og er talið líklegt að fjöldi fólks muni taka þar þátt í mótmælum gegn kínverskum stjórnvöldum vegna ástandsins í Tíbet og annarra mannréttinda brota kínverska stjórnvalda. Eldurinn kom til Lundúna í gær frá Pétursborg í Rússlandi og var mikil öryggisgæsla viðhöfð þegar hann var fluttur á óþekktan stað og geymdur í nótt. Þar gæta um tvö þúsund lögregluþjónar hans.

Móttökunefnd beið á Heathrow flugvelli þegar eldurinn kom til landsins, þar á meðal sendiherra Kína í Lundúnum og ráðherra íþróttamála í Bretlandi.

Á morgun verður farið með ólympíueldinn um París og til San Francisco tveimur dögum síðar. Hafa mótmæli verið skipulögð í báðum borgunum.  

Víða um heim hafa stjórnmálaleiðtogar verið beðnir um að sniðganga Ólympíuleikana vegna þeirra mannréttindabrota sem hafa viðgengist í Tíbet um langt skeið. Undanfarið hafa víða brotist út átök milli Tíbeta og kínverskra stjórnvalda.

Kínverjum var afhentur ólympíueldurinn í Aþenu í lok mars. Ferðast verður með eldinn um tuttugu lönd áður Ólympíuleikarnir verða settir í Peking hinn 8. ágúst næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert