British Airways „aðhlátursefni“

„Velkomin í Flugstöð 5“
„Velkomin í Flugstöð 5“ Reuters

Í dag gekk enn allt á afturfótunum í nýju flugstöðinni á Heatrow-flugvelli, og gáfu samtök flugmanna hjá British Airways út yfirlýsingu þar sem æðstu stjórnendum fyrirtækisins var kennt um hvernig komið sé, og sagðir hafa gert flugfélagið að aðhlátursefni.

BA aflýsti 47 flugferðum í dag, en í gær voru 126 ferðir felldar niður vegna veðurs og vandræða með farangursflutningskerfið í nýju flugstöðinni, Terminal 5, sem hefur ekki virkað sem skyldi einn einasta dag frá því stöðin var opnuð 26. mars.

Fyrir helgina höfðu alls um 20.000 ferðatöskur orðið viðskila við eigendur sína, og alls um 430 ferðum aflýst.

Breska stjórnin hefur lýst því yfir að vandræðagangurinn sé alvarlegt áfall fyrir breskt þjóðarstolt.

Samtök flugmanna BA (BALPA) sakar stjórn félagsins um skort á hæfni til að takast á við vandann, og sé til marks um að ekki sé lengur lögð áhersla á að BA veiti góða þjónustu.

„Flugfélagið getur og á að vera stolt Bretlands, en þörf er á grundvallarviðhorfsbreytingu æðstu stjórnenda,“ segir í yfirlýsingu BALPA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert