Talsmaður Hvíta hússins ítrekaði í dag að George W. Bush Bandaríkjaforseti myndi mæta á setningarathöfn Ólympíuleikanna í Peking. Ekki væri að undra að efnt hafi verið til mótmæla er eldur leikanna var borinn um London og París.
Bush hefur ekki hvikað frá þeirri afstöðu sinni að mæta á setningarathöfnina, þrátt fyrir að þingmenn demókrata hafi hvatt hann til að sniðganga hana í mótmælaskyni við aðgerðir Kínastjórnar gegn Tíbetum.
Talsmaður forsetans, Tony Fratto, sagði bandarísk stjórnvöld vera „mjög umhugað um mannréttindi í Kína og þær aðferðir sem fólk í frjálsum lýðræðisþjóðfélögum getur beitt, tjáningar- og fundafrelsi, og við höfum aldrei hikað við að viðra þessar skoðanir [okkar] í Kína.“
Fratto lét þessi orð falla áður en Hillary Clinton hvatti Bush til að sniðganga ÓL.
Fratto sagði ennfremur að það kæmi sér ekki á óvart að mótmælt hafi verið í London og París þegar Ólympíueldurinn var borinn um borgirnar í gær og dag.
„Fólk um allan heim hefur mjög ákveðnar skoðanir á réttindum kínversku þjóðarinnar til tjáningarfrelsis og lítur á eldinn sem tækifæri til að láta þær í ljósi. Og við, Bretar og Frakkar, höfum auðvitað almennt tjáningarfrelsi í heiðri.“