Þekktur glæpasagnahöfundur í Búlgaríu liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi í Sofiu, höfuðborg landsins, eftir að hafa verið skotinn í höfuðið um hádegisbilið í dag. Georgi Stoev hefur bæði skrifað skáldsögur og bækur byggðar á heimildum um skipulagða glæpastarfsemi í Búlgaríu.
Árásarmaðurinn náðist ekki og er ekki vitað hver hann er, samkvæmt búlgörskum fjölmiðlum. Stoev er fyrrum meðlimur í glæpasamtökum í Búlgaríu en lét af þeirri iðju sinni er hann hóf að skrifa bækur.
Árásin á Stoev er önnur skotárásin á innan við sólarhring í Sofiu. Seint í gærkvöldi var forstjóri stórs orkufyrirtækis skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í borginni. Tilræðismaðurinn hefur ekki fundist.