Slökkt á ólympíueldi í París

Lögregla hefur slökkt eldinn á ólympíukyndlinum, sem átti að hlaupa með gegnum París í dag en miklar mótmælaaðgerðir hafa verið í borginni gegn Kína, þar sem Ólympíuleikarnir verða í sumar, líkt og í Lundúnum í gær þegar hlaupið var með kyndilinn í gegnum þá borg.

Hlaupa átti með kyndilinn frá Eiffelturninum 28 km leið um götur Parísar í dag að íþróttaleikvangi. Áttatíu hlauparar áttu að skiptast á um að bera kyndilinn.

Að sögn AP fréttastofunnar stöðvuðu lögreglumenn kyndilhlaupið á götu á bakka Signu skömmu eftir að það hófst, slökktu á kyndlinum og fóru með hann inn í rútu. Mótmælendur með fána Tíbets stóðu við götuna þegar hlaupið var stöðvað. Ekki var vitað hvort hlaupinu verður haldið áfram annars staðar.

Um 3000 lögreglumenn, sumir á mótorhjólum en aðrir fótgangandi eða á hjólaskautum, sjá um öryggisgæslu í tengslum við kyndilhlaupið í París. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka