Frakkar hvattir til að ráðast á sjóræningja

Héraðsstjóri í sómalska héraðinu Bari hefur hvatt yfirvöld í Frakklandi til að ráðast á sjóræningja sem herja á skip úti fyrir ströndum landsins en sjóræningjar halda nú 32 gíslum um borð í franska skemmtiferðaskipinu ”Le Ponant”. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.”Jafnvel þótt aðrir munu láta lífið í slíkri árás þá er mikilvægast að drepa sjóræningjana og skapa þannig frið á hafsvæðinu við Sómalíu,” segir héraðsstjórinn Musa Ghelle Yussuf í símaviðtali við frönsku fréttastofuna AFP en Bari er vinsæll áningastaður meðal sjóræningja.

Yfirvöld í Frakklandi reyna nú að semja um lausn gíslanna en segja hernaðaraðgerðir gegn þeim þó ekki útilokaðar.

Hryðjuverkasérsveit franska hersins GIGN hefur verið flutt til franskrar herstöðvar í Djibouti, nágrannaríki Sómalíu, og liggur ”Le Ponant” við akkeri um 1.000 km suðaustur af herstöðinni við sómalska hafnarbæinn Garaad. Gíslarnir eru allir úr áhöfn skipsins. Tíu þeirra eru frá Úkraínu en aðrir franskir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert