Kína: Kyndilhlaup heldur áfram

Kínversk stjórnvöld segja að enginn mannlegur máttur muni stöðva  kyndilhlaupið fyrir ólympíuleikana í Peking í ágúst. Miklar truflanir urðu á hlaupinu með kyndilinn í Lundúnum og París í vikunni vegna mótmæla og búast má við aðgerðum í San Francisco, þar sem hlaupa á með kyndilinn á morgun.

Sjö voru handteknir á Golden Gate brúnni í San Francisco í gærkvöldi eftir að þeir klifruðu upp í brúna og komu fyrir mótmælaborðum og tíbetska fánanum.

Sun Weide, talsmaður kínversku ólympíunefndarinnar, sagði í gærkvöldi að kyndilhlaupið muni halda áfram samkvæmt áætlun. Kínverska ríkissjónvarpið sagði í gær, að þeir sem hefðu staðið fyrir mótmælum í Lundúnum og París væru nokkrir tíbetskir aðskilnaðarsinnar. 

Ólympíueldurinn var tendraður í forna gríska þorpinu Ólympíu 24. mars. Hlaupa á með hann í 20 löndum áður en hann verður borinn inn á ólympíuleikvanginn í Peking 8. ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert