Embættismenn óku með ólympíukyndilinn um 2 km inn í landið frá San Francisco í Kalíforníu og afhentu hann tveimur hlaupurum á svæði sem er í talsverðri fjarlægð frá þeim stað sem þúsundir manna, þar á meðal mótmælendur og fjölmiðlamenn höfðu safnast saman.
Til stóð að hlaupa með ólympíueldinn meðfram sjónum. Kveikt var á kyndlinum uppi á sviði við sjóinn og fyrsti kyndilberinn hljóp með kyndilinn inn í vörugeymslu. Út úr geymslunni kom mótorhjólalest en kyndilberinn sást ekki meira.
Síðan var ekið með eldinn inn í landið þar sem tveir hlauparar tóku við honum.
Um klukkutíma áður en hlaupið átti að hefjast var ákveðið að stytta vegalengdina um helming, úr 10 km í rúmlega 5 km. San Francisco er eina borgin í Bandaríkjunum sem ólympíueldurinn fer um.